top of page

Ravioli með spínat og ricotta osta fyllingu

  • Writer: Guðmundur Jóhann Árnason
    Guðmundur Jóhann Árnason
  • Mar 20, 2020
  • 3 min read

Þessi uppskrift tekur sirka 2 rauðvínsglös í tíma. Gæti jafnvel farið í 3 glös.


Byrjað er á því að gera pastað skv. þessari uppskrift. Hér skiptir máli að muna að gera ráð fyrir klukkustundarhvíld á deiginu.


Fyrir 4

Hráefni:

400 gr. Pastadeig

100 gr. Spínat (heill poki)

Hálf tsk. múskat (nutmeg)

70 gr. rifinn parmesan

Salvía

75 gr. smjör

Salt

Pipar


Gott að eiga:

Pastavél eða kökukefli

Fylling:

Steikið spínatið á pönnu með smá smjörklípu. Steikið spínatið þar til það hefur minnkað, takið það þá af pönnunni og setjið í sigti og látið leka af því. Vindið spínatið þannig að sem mestur vökvi fari úr því.

Blandið saman í skál parmesan ostinum og kældum ricotta ostinum.

Skerið spínatið mjög smátt þegar það hefur kólnað og bætið því svo við í skálina með ostunum.

Saltið og piprið og blandið vel saman.

Aðferð:

Þegar pastað er klárt er það annaðhvort keyrt í gegnum pastavél eða notað kökukefli til að ná því í þá þykkt sem við viljum. Ég fer venjulega að næst þrengsta bilinu í pastavélinni. Það er smekksatriði hvers og eins, en með því næ ég al dente áferð á deigið í suðu og það er auðveldara að eiga við það þegar fyllingin er sett í deigið.




Skiptu deiginu í 4 hluta og passaðu að þeir partar sem þú geymir séu í loftheldri plastfilmu á meðan svo það þorni ekki. Taktu einn partinn og flettu hann út. Mikilvægt er að fletja deigið þannig út að helmingurinn getur verið flett yfir. Ef þú átt ravioli stimpil er gott að "merkja" deigið með því að dífa því í vatn og press því létt á deigið á þeim stöðun sem fyllingin kemur eins og sést á myndinni hér að ofan. Ef þú átt ekki slíkan stimpil er gott að dífa putta í kalt vatn (sem ég hef alltaf í skál á vinnuborðinu) og merkja með því að teikna með vatnbleytta puttanum. Þetta skiptir máli til að áætla magn fyllingar en skiptir líka máli til þess að deigið festist vel saman þegar það er pressað saman og heldur þal. fyllingunni betur.


Þegar merkingin er búin taktu þá teskeið af fyllingunni og settu á miðja merkinguna. Nú kemur að því sem er flóknast og kallar á mestu nákvæmnina, en það er að loka fyllinguna inni.


Taktu hinn hlutann á deiginu og færðu hann rólega yfir fyllingahelminginn þannig að hann liggi. Byrjaðu á einum endanum og notaðu puttana til þess að þrýsta deiginu saman í kringum fyllinguna og öllu lofti út. Reyndu að vinna þig svo áfram út lengjuna með því að taka eina fyllingu í einu og pressa saman. Hér skiptir mestu að allt loft fari úr og deigið liggi þétt að fyllingunni.


Ef þú átt stimpil þá er hér komið að því að "skera" deigið með því að pressa stimplinum vel á og nota stimpilinn til þess að aðskylja. Ef þú átt ekki stimpil þá er gott að nota t.d. pizzahníf og skera meðfram þannig að úr verðir ravioli koddar.


Hafðu hjá þér eldfast mót og semolina hveiti eða venjulegt hveiti. Dreifðu hveiti á botninn og leggju tilbúnu ravioli-in þar og settu hveiti yfir. Þetta skiptir máli þar sem við viljum ekki að þau þorni upp né að þeir festist saman á meðan unnið er að restinni.


Endurtaktu með hina þrjá partana.


Eldun:

Settu stóran pott undir með köldu vel söltu vatni og náðu upp suðu.

Á meðan það er að gerast hafðu stóra pönnu á annarri hellu. Settu smjörið á pönnuna og bræddu það ásamt tveimur laufum af Salvíu. Hafðu meðalhita á pönnunni - sirka 6 af 9. Passaðu að brúna ekki smjörið (nema það sé það sem þú vilt).


Þegar þetta allt er klárt er byrjað að sjóða ravioli-ið. Settu það í pottinn og það þarf 2 - 3 mín í suðu. Ekki er hægt að sjóða allt í einu svo það er betra að gera það í skömmtum, fer þó eftir stærð pottsins. Þegar suðutíminn er búinn er gott að nota fiskispaða til að ná því úr pottinum og færa það yfir á pönnuna. Endurtakið þetta þar til allt er komið á pönnuna. Veltið þá pastanu duglega í smjörinu og leyfið að sitja á pönnunni í 3- 4 mín.


Berið svo fram með hráskinku og meiri parmesan ost og ítalska hjartað fær aukaslag.

Recent Posts

See All

Commentaires


bottom of page