top of page

Heimagert pasta

  • Writer: Guðmundur Jóhann Árnason
    Guðmundur Jóhann Árnason
  • Mar 20, 2020
  • 2 min read

Það er mjög einfalt að græja frábært pasta heima hjá sér.


Meginreglan í pasta er að miða við 100 gr. af hveiti pr. manneskju og eitt egg pr. 100. gr. hveiti. Eins bæti ég alltaf einni til tveimur eggjarauðum. Einni ef ég er að gera fyrir 4 eða færri og tveimur ef ég geri fyrir 5 eða fleiri.


Uppskrift fyrir 4

Hráefni:

300 gr. Fínt hveiti - helst 00 hveiti sem fæst t.d. í Hagkaup og Krónunni.

100 gr. Semolinahveiti - fæst í Fisku

Klípa af salti

4 Egg

1 eggjarauða

Aðferð:

Mér finnst best að nota matvinnsluvél - það styttir aðeins tímann. Þá set ég hníf í vélina og sett allt hráefni ofan í og set í gang og pumpa vélina þar til deigið er farið að mynda deigkúlur og hnoðast ekki meira saman í vélinni.


Einnig er hægt að blanda hráefnunum bara í skál með höndunum eða búa til hveitifjall á borðinu og blanda eggjunum hægt saman með skál. Á youtube eru endalaust af myndböndum um hvernig er best að hnoða saman deig.


Eftir að deigið hefur tekið sig þokkalega í vélinni eru mikilivægt að hnoða það mjög vel. Það er sett á borð og hnoðað af krafti í 10 mínútur, eða þar til deigið fer að mýkjast. Í þessu ferli myndast glúteinið sem skiptir öllu máli til að deigið haldi sér vel saman. Ekki gefa afslátt af hnoði. Það er bara góð líkamsrækt.


Í lokin er svo deigið mótað í fallega kúlu.


Þegar hnoðun líkur þarf deigið að hvíla í ísskáp í amk klukkutíma. Þá er deigkúlan vafinn í plastfilmu og passa verður að ekkert loft komist að deiginu, því þá þornar það upp.


Að klukkutíma liðnum er deigið tilbúið og þá er bara að fletja það út með pastavél eða kökukefli og skera í hvaða form sem þú vilt.


Pastað er svo sett í vel salt sjóðandi vatn í 3 mínútur og er þá tilbúið!



Comments


bottom of page