Boeuf Bourgignon (Beef Búrningjon) með parmesan kartöflumús
- Guðmundur Jóhann Árnason
- Oct 26, 2020
- 4 min read
Þetta er allra besti sunnudags-haust matur í heiminum geiminum. Það er ekki hægt að lýsa því nógu vel hvað það er gott að setjast niður á köldu haustkvöldi, með góðum vinum og dreypa á góðu rauðvíni með þessari frönsku kássu. Þú hefur ekki lifað fyrr en þú eldar þetta. Þessi uppskrift hljómar flókin, en kássan krefst fyrst og síðast þolinmæði, sjálf eldamennskan tekur stuttan tíma. Kássan þarf að sitja í ofni í 5 klukkustundir svo gott er að hefjast handa fljótlega eftir hádegið.
Hægt er að sjá ferlið í highlights á Instgraminu mínu - instagram.com/gummabakari


Uppskriftin er fyrir 4 - 5
Hráefni:
Beouf Bourgignon
1,4 kg brisket kjöt
2 gulir laukar
3 hvítlauksgeirar eða hálfur kínverskur hvítlaukur
5 gulrætur
170 gr. Beikon
2 Sellerístilkar
1 Rauðvínsflaska
1L Nautasoð
Timian - ferskt
Rósmarín - ferskt
3 Lárviðarlauf
2 Msk Tómatpúrra
4 msk hveiti
250 gr. Sveppir
100 gr. smjör
Perlulaukur
1/2 líter af nautasoði
Steinselja
Salt
Pipar
Parmesan kartöflumús
1 kg gullauga kartöflur
2 Hvítlauksgeirar
Steinselja
1/2 bolli Parmesan ostur
200 ml. mjólk
100 ml. Rjómi
100 gr. íslenskt smjör

Aðferð:
Miklu skiptir að huga vel að undirbúningi áður en farið er af stað. Ég myndi því skera allt áður en sjálf eldunin hefst.
Beouf Bourgignon
Skera beikon í smáa bita.
Snyrta kjötið og taka alla harða fitu af kjötinu og fjarlægja sinar. Skera kjötið svo í bita sem eru sirka 5 cm á breidd og lengd. Þurrka kjötið vel og setja salt og pipar á allar hliðar.
Skera laukana smátt, hvítlaukinn smátt og selleríið í smáa bita. Gulræturnar á að snyrta og skera í þykkari bita.
Gerið kjötsoðið klárt. Setjið 1 Líter af vatni í pott og náið upp suðu og setjið þá 30 ml af nautasoði við. Leyfið að sjóða í 2 - 3 mínútur og hrærið vel. Takið svo til hliðar.
Stillið ofninn á 140 gráður - undir og yfirhita.
Þegar þetta er allt klárt er olía sett í stóran steinsteypupott og byrjað er á að steikja beikonið. Beikonið á ekki að vera stökkt heldur elda það 80%. Það klárast svo í pottinum. Taka beikonið úr og leggja til hliðar.
Næst er að brúan kjötibitana. Mikilvægt er að steikja ekki marga í einu heldur gera það í pörtum. Annars soðnar kjötið. Þegar því er lokið á að setja kjötið til hliðar.
Næst er að lækka aðeins á pottinum og bæta olíu og svita laukinn, gulræturnar, hvítlaukinn og selleríið. Passa þarf vel að brenna ekki laukinn heldur einungis fá fallegan gljáa á grænmetið.
Að því loknu er kjötið og beikonið sett aftur í pottinn. Takið hveitið og dreifið yfir pottinn. Passa vel að blanda öllu vel saman núna þannig að hveitið nái utan um allt kjötið.
Nú er aftur hækkað í botn og heilli flösku af rauðvíni hellt yfir.
Kjötsoði er bætt við þar til vökvinn hylur kjötið í pottinum.
Setjið lárviðarlaufin út í, eina greina af rósmarín og sama af timian. Bætið tómatpúrrunni líka við og náið upp suðu.
Leyfið að krauma í 5 mínútur - lokið þá pottinum og setjið inn í ofninn. Þar verðu það í 5 klukkustundir (lágmark 4)
Bræðið 50 gr. af smjöri á pönnu og steikið sveppina heila. Salta og pipra. Steikið þá í nokkrar mínútur þar til þeir ná lit og leggið svo til hliðar
Búið til 1/2 líter af nautasoði eins og áður.
Setjið 50 gr. af smjöri á pönnu og steikið perlulaukinn og saltið og piprið. Lækkið í meðalhita og hellið 1/2 lítra af nautasoði yfir laukinn og látið malla þar til soðið er gufað upp, sem tekur u.þ.b. 45 mínútur. Leggið svo til hliðar.
Þegar klukkustund er eftir af eldunartímanum þá skal bæta sveppunum og perlulauknum út í pottinn, loka aftur og halda áfram í 140 gráðum í ofninum.
Þegar 5 klukkustundir eru liðnar þá skal taka pottinn út og taka kjötið og grænmetið úr og setja í skál til hliðar. Hér nota ég fiskispaða til að veiða matinn úr. Takið frá lárviðarlaufin og jurtirnar og hendið.
Setjið pottinn á hellu og náið upp suðu og sjóðið sósuna niður í sirka 30 mínútur.
Bætið kjötinu og grænmetinu aftur við sósuna.
Nú er kjótkássan klár og má hún sitja í rólegheitum í pottinum meðan hugað er að músinni,
Saxið steinselju og dreifið yfir í lokin.

Parmesan kartöflumús
Afhýðið kartöflurnar og sjóðið í vel söltu vatni í 20 mínútur. Látið rjúka vel af þeim í lokin og reyna að leyfa mesta vökvanum að gufa af þeim. Vökvi er ekki vinur þarna.
Blandið saman mjólkinni og rjómanum í ílát sem þægilegt er að hella úr.
Rífið parmesan og saxið hvítlaukinn smátt.
Saxið sirka hálfan bolla af steinselju,
Maukið kartöflurnar með músaspaða? Eða þessu tæki þarna. Hvernig sem þið viljið. Maukið þær bara vel.
Bræðið 100 gr. af smjöri í potti á meðalhita. Þegar fer að krauma í smjörinu bætið hvítlauknum við og steikið í 1 mínút. Passa samt að brenna ekki laukinn.
Bætið næst steinselju út í smjörið og blandið saman.
Setjið kartöflustöppuna út í smjörið og parmesan ostinum.
Blandið saman með sleif.
Takið pottinn af hellunni og hellið rjómablöndunni í pörtum út í og blandið með sleif þar til þið náið þeirri áferð sem þið kjósið.
Saltið og piprið.
Á þessum tímapunkti myndi ég opna rauðvínið og kalla "matur". Gott er að bjóða upp á salat með þessu en það er samt í raun óþarfi.
Verði þér að góðu!
Comments