Súrdeigs tengdamömmutungur (Grissini)
- Guðmundur Jóhann Árnason
- Apr 19, 2020
- 1 min read
.. eða bara geggjað ítalskt kex. Þú mátt kalla þetta það sem þú vilt. Mér finnst tengdamömmutungur samt best og vil skila þökkum til þess aðila sem ákvað þetta nafn.

Hráefni:
200 gr. Hress súr
1/2 tsk Sjávarsalt
3 msk. Ólívuolía
1 msk Ítalskt krydd
60 gr. Hvítt hveiti
60 gr. Heilhveiti
Sjávarsalt til að krydda eftir á
Kalt vatn til að smyrja deigið með
Aðferð:
1. Blandið saman súrnum, heilhveitinu, hvíta hveitinu, olíunni, saltinu og ítalska kryddinu saman í skál.
2. Blandið vel saman og byrjið að hnoða með höndunum.
3. Takið deig úr skálinni og hnoðið vel í 5 mínútur, þar til deigið er komið vel saman og komið í mjúka kúlu.
4. Setjið deigið þétt í plastfilmu og inn í ísskáp í 30 - 60 mínútur
5. Þegar deigið er klárt kveikið á ofninum og setjið tvær grindur inn. Ég notaði eina svarta og eina grind. Stillið ofninn á 170 gr. blástur.

6. Ef þið eigið pastavél þá skuliði draga hana fram, annars þarf að nota kökukefli. Takið deigið út og skiptið í tvennt. Setjið annan hluta aftur í plast og inn í ísskáp en skiptið hinum hlutanum í 4 jafna hluta. Fletjið út með pastavél ( fór mest í næst minnsta bilið) eða fletjið með kökukefli eins þunnt og þið getið. Setjið tungurnar á bökunarpappír.


7. Smyrjið deigið með vatni eða sprautið á það og dreifið sjávarsalti yfir.
8. Setjið í ofninn í 12 mínútur. Eftir 6 mín skal samt taka ofnskúffurnar og snúa þeim og láta þá efri niður og öfugt.
Leyfið að kólna og étið!

Comments